Saga Randulffssjóhúss í stuttu máli

Upp úr 1870 hafði síldveiði verið stunduð í Noregi um langan tíma og voru aðferðir við veiðarnar orðnar þróaðar og voru síldveiðar norðmanna stór atvinnuvegur. En um þetta leiti hvarf síldin við Noreg og stóðu menn uppi ráðalausir. Fréttist þá frá farmönnum sem höfðu siglt til Íslands, að þar væru mikla síld að sjá inni á Austfjörðum og einnig á Eyjafirði. Ákváðu þá nokkrir síldveiðimenn að fara til Íslands og kanna veiðiskap þar. Þá kunnu Íslendingar enga leið til þess að veiða síldina, þó að nóg væri til af henni við fjöruborðið og urðu að láta sér nægja að dorga fyrir þorsk. Var þetta fyrir almenna fátækt og þekkingarleysi. Fluttu því nokkrir Norðmenn veiðibúnað sinn hingað, fyrst til Austfjarða og síðan til Eyjafjarðar og veiddu vel. Með þeim fyrstu sem komu til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, voru Peter Randulff, sem settist að á Hrúteyri við Reyðarfjörð og J.E. Lehmkuhl sem byggði upp veiðistöð sína á Eskifirði, á þeim stað þar sem Jóhann Klausen byggði Netaverkstæði árið 1960 Norðmaðurinn Fredrik Klausen sá um síldveiðarnar fyrir Lehmkuhl og flutti til Eskifjarðar með sína fjölskyldu. Nokkrum árum síðar byggði Lehmkuhl aðra veiðistöð skammt innan við stöð Randulffs á Reyðarfjarðar ströndinni. Lehmkuhl og Randulff, unnu mikið saman og þegar Peter Randulff byggði Randulffssjóhúsið á Eskifirði árið 1890 þá mun sonur Fredriks, Þorgeir Klausen hafa tekið við stjórnun á síldveiðunum á nýju stöðinni. Þorgeir Klausen kvæntist dóttur Randulffs og þegar Randulff féll frá árið 1911 mun Þorgeir og bróðir hans Friðrik hafa eignast sjóhúsið, en það hefur alla tíð síðan verið kallað Randulffs-sjóhús. Þeir bræður stunduðu svo síldveiðar í botnnet og lagnet og notuðu til þess lítinn mótorbát, ásamt gömlu nótabátunum sem voru róðrarbátar. Einnig veiddu þeir þorsk sem var saltaður og þurrkaður, eins og gert var áður en frystihúsin komu til sögunnar. Eftir að þeir bræður Þorgeir og Friðrik féllu frá, á árunum 1955-1960 eignuðust börn þeirra húsið og var það í umsjá Thors Klausen sem var sonur Friðriks. Thor var mikill veiðimaður og veiddi hann bæði síld og þorsk og einnig veiddi hann með byssu sinni, sel og hnísu, sem er minnsti hvalur við Ísland og sjófugla á vetrum og notaði hann þá alltaf lítinn róðrarbát. Síðari árin stundaði hann kolaveiðar í net á litlum trillubát og gaf hann safninu báða þessa báta. Sjóminjasafn Austurlands keypti helming sjóhússins og bryggjunnar af dóttur Þorgeirs, árið 1982 og nokkrum árum síðar gaf Thor safninu sinn hluta eignarinnar. Safnið hefur endurbætt húsið og bryggjuna, þannig að það er að mestu leiti eins og það var upphaflega.

Í dag er rekinn veitingastaður með safninu sem Ferðaþjónustan Mjóeyri sér um.

Randulffssjóhús á Eskifirði er veitingarstaður í gömlu norsku síldarsjóhúsi og er starfrækt í samvinnu við Ferðaþjónustuna Mjóeyri yfir sumartímann, við kappkostum okkur að bjóða upp á mat úr héraði. Á efri hæð hússins er verðbúð sjómannanna í sinnu upprunalegu mynd en þar er einnig ljósmyndagallerí.

Randulffssjóhús er opið frá kl 12-21 alla daga sumarsins og er með matseðil bæði í hádeginu og á kvöldin og kaffimatseðil yfir daginn. Hægt er að panta fyrir hópa á öðrum tímum. Á veitingarstaðnum starfa lærðir kokkar sem leggja mikla áheyrslu á ferskan mat úr nágrenninu svo sem ferskan fisk úr firðinum, hreindýr ofl.

Sérstök stemming og frábær matarupplifun.

1.júní – 31.águst: 12:00 – 21:00
1.september – 31.maÍ: Lokað

Heimasíða veitingastaðarins er www.Randulfssjohus.is